Einar Freyr Elínarson í Sólheimatungu var endurkjörinn formaður Samtaka ungra bænda, til næstu tveggja ára, á aðalfundi samtakanna sem haldinn var á Hótel Sögu síðastliðinn laugardag.
Aðrir nýjir í stjórn eru Bjarni Rúnarsson frá Reykjum á Skeiðum og Jóhannes Kristjánsson. Áfram sitja í stjórn Jóna Björg Hlöðversdóttir og Jón Elvar Gunnarsson. Meðal varastjórnarmanna er einn Sunnlendingur, Jón Gautason frá Læk.
Svohljóðandi ályktanir, auk annarra, voru samþykktar á fundinum:
Aðalfundur SUB […] samþykkir að gerast aðildarfélag Bændasamtaka Íslands, að gefnu samþykki Búnaðarþings 2016.
Aðalfundur SUB […] fagnar þeirri niðurstöðu samninganefndar bænda og samninganefndar ríkisins að greiðslumarkskerfi í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði aflagt. Um leið og það er gert verður að tryggja rekstrargrundvöll þeirra bænda sem hafa spilað eftir gildandi leikreglum og fjárfest í greiðslumarki.
Aðalfundur SUB […] skorar á stjórnvöld að móta byggðastefnu fyrir Ísland. Mikilvægt er að fjölbreytt samfélög þrífist í hinum dreifðari byggðum og til þess þarf grunnþjónustu, góðar samgöngur og fjarskiptamál sem eru í lagi.
Aðrar ályktanir verð aðgengilega á heimasíðu samtakanna innan skamms.
Því má bæta við að samtökin fengu hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Ungur Bóndi á Snapchat við setningarathöfn Búnaðarþings í Hörpu um síðustu helgi.