Í dag fór fram stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar í Hörpu. Stjórn Tónlistarmiðstöðvar var kynnt á fundinum en formaður stjórnar miðstöðvarinnar er Selfyssingurinn Einar Bárðarson.
„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, í Hörpu í dag.
Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni.
Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.