Átta ára strákur á Selfossi, Alex Ernir Stefánsson, fékk góða heimsókn í dag þegar Einar Mikael töframaður bankaði uppá heima hjá honum.
Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum fékk Alex Ernir heimsókn frá sjúkraflutningamönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á aðfangadag þar sem honum og fjölskyldu hans voru afhentar gjafir og ágóði af dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.
Alex Ernir ætlar að verða sterkasti fatlaði maður í heimi en auk þess langar hann til þess að verða töframaður. Sjúkraflutningamennirnir ætluðu því að taka Einar Mikael með sér í heimsóknina á aðfangadag, en hann var vant við látinn þá – en vildi endilega heimsækja Alex Erni síðar.
Í dag bankaði síðan töframaðurinn uppá heima hjá Alex Erni sem varð heldur betur steinhissa – og ánægður með heimsóknina. Einar Mikael brá á leik fyrir Alex og fleiri krakka úr hverfinu, sýndi og kenndi töfrabrögð og gaf Alex áritað veggspjald, galdrasett og galdrabók.
Þeir félagar kvöddust síðan meira en sáttir og það er alveg víst að töframannadraumurinn hjá Alex Erni hefur ekki minnkað eftir þessa heimsókn.