Eineltisátak hefst í Árborg

Heimili og skóli – landssamtök foreldra og fleiri aðilar hefja eineltisátak á landsvísu á morgun, þriðjudag og verður verkefninu ýtt úr vör í Árborg.

Það eru Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Liðsmenn Jerico, Olweusaráætlunin og Ungmennaráð SAFT í samstarfi við Símann, Velferðarráðuneytin þrjú, mennta- og menningarmálaráðuneytið, félags- og tryggingarmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og styrktaraðila sem standa að átakinu sem fram fer á ellefu stöðum á landinu frá 14. september til 2. nóvember 2010. Yfirskrift átaksins er Stöðvum einelti – strax.

Í fyrramálið fer fram jafningjafræðslufundur fyrir unglinga í Árborg þar sem leikhópur unglinga af svæðinu mun m.a. sýna leikritið „Þú ert það sem þú gerir á netinu“ eftir Elítuna og Rannveigu Þorkelsdóttur.

Annað kvöld mun Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, síðan opna fyrsta borgarafund átaksins sem haldinn verður í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi kl. 20. Umfjöllunarefni borgara- og fræðslufundanna er einelti og ungt fólk, netið og ábyrgð samfélagsins. Þar verður leikrit unglinganna endurflutt og flutt erindi um einelti út frá sjónarhóli foreldra og þolenda auk þess sem rætt verður um þau úrræði sem í boði eru. Umræður verða að loknum framsöguerindum. Sigurður Bjarnason, fræðslustjóri Árborgar, verður fundarstjóri og eru allir velkomnir.

Einelti er ekki einkamál þeirra sem í því lenda, heldur samfélagslegt vandamál. Einelti er ofbeldi sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið í heild. Nauðsynlegt er að taka upp umræðu um einelti á opinberum vettvangi og vekja athygli fólks á mikilvægi þess að vera vel á verði.

Fyrri greinEinn handtekinn fyrir ólæti
Næsta greinElfa Dögg nýr formaður SASS