Það sem breyst hefur í starfi landvarða á Suðurlandi sem og á fleiri stöðum innanlands er fjölgun vetrarferðamanna. Ágangur sem þeim fylgir er ný áskorun á viðkvæmum svæðum.
Enginn fastur landvörður hefur verið á vegum Umhverfisstofnunar á Suðurlandi á veturna en á því er að verða breyting.
Þetta kemur fram í viðtali við Hákon Ásgeirsson, landvörð hjá Umhverfisstofnun, á vef UST. Hákon er sérfræðingur á Suðurlandi með skrifstofu á Hellu.
Meginverkefni hans á sumrin eru að hafa umsjá með friðlýstum svæðum. Stjórnsýslustörf eru einnig viðamikill þáttur í störfum Hákonar. Skógafoss og Dyrhólaey eru á meðal þekktustu staðanna sem hann sinnir. Skógafoss er álíka fjölfarið svæði og Gullfoss og leitun að öðrum eins ferðamannastraumi.
„Það sem er áhugavert við starf landvarðarins er að þeir sem starfa við landvörslu gera það af ástríðu fremur en að fara bara í vinnuna að morgni dags af gömlum vana. Ég held að ástríða fyrir náttúrunni og verndun hennar keyri okkur flest áfram,“ segir Hákon.
Nær að halda bílunum í burtu
Eitt af því sem vekur athygli þegar farið er um landið er að bílastæði eru löngu sprungin víða og úr sér gengin. Mikill fjöldi bíla er við Skógafoss og fleiri staði. Þegar við ræðum þau mál bendir Hákon á að til dæmis í Slóveníu séu nú ýmis verkefni í gangi undir heitinu „Cars out“.
„Þeir eru að reyna að koma bílunum burt frá viðkvæmum svæðum á sama tíma og við erum enn dálítið upptekin við að koma bílunum inn í náttúruperlurnar. Kannski ættum við frekar að leggja áherslu á að halda bílunum fyrir utan og sjá til þess að greiðara verði að ganga inn á svæðin,“ segir Hákon.
Er við ökum síðar um daginn framhjá Dyrhólaey,“ segir hann. „Það væri mjög einfalt að halda bílum fyrir utan Dyrhólaey svo eitt dæmi sé nefnt.