Sex voru fluttir á slysadeild í Reykjavík eftir harðan árekstur jepplings og fólksbíls á Biskupstungnabraut á þriðja tímanum í dag.
Fjórir voru í jepplingnum og tveir í fólksbílnum en farþegi í honum hlaut beinbrot og er alvarlega slasaður. Tveir aðrir kvörtuðu undan eymslum innvortis.
Bílarnir komu úr gagnstæðri átt og rákust framendar þeirra saman. Jepplingurinn valt á hliðina út fyrir veg við áreksturinn sem var mjög harður.
Lögreglan er enn að athafna sig á vettvangi en slysið varð miðja vegu milli Þrastalundar og Þingvallaafleggjarans. Vegurinn verður lokaður næstu klukkustundina en umferð er beint um Þingvallaveg og Grafning.