Einn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi eftir að mikið breyttur Ford Econoline fór útaf Gjábakkavegi í dag og valt utan vegar.
Einn farþeganna í bílnum kastaðist út úr honum í veltunni. Ekki er talið að áverkar hans séu lífshættulegir.
Nokkuð hefur verið um umferðaróhöpp hjá lögreglunni á Suðurlandi í dag. Flest hafa verið minniháttar þar sem eingöngu er um eignatjón að ræða en ekki slys á fólki. Flest slysanna má rekja til þess að akstur ökutækja er ekki miðaður við aðstæður sem og reynsluleysi ökmanna.
Í ljósi þessara slysa hvetur lögregla ökumenn til þess að haga ökuhraða og akstri eftir aðstæðum sem og að gæta að notkun bílbelta hvort sem er í fólks- eða hópbifreiðum.