Einn gisti fangageymslur á Selfossi

Nóttin var nokkuð erilsöm hjá lögreglunni á Selfossi, m.a. voru afturrúður brotnar í nokkrum bílum í bænum og 16 ára ökumaður var stöðvaður undir stýri.

Karlmaður gistir fangageymslur lögreglunnar fyrir ölvun og óspektir en sá hinn sami varð illur þegar lögregla bankaði upp á hjá honum eftir að hafa borist kvörtun um hávaða frá íbúðinni. Hann réðist að lögreglumanni sem bað hann um að hafa lægra og var skellt í járn. Vegna ölvunar var ekki hægt að yfirheyra manninn í nótt en það verður gert um leið og hann hefur sofið úr sér áfengisvímuna.

Þá var annar maður tekinn í tvígang fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í gærkvöldi og nótt. Um er að ræða rúmlega tvítugan karlmann og var hann fyrst tekinn um sjö leytið í gær og síðan aftur um klukkan fjögur í nótt.

Í síðara skiptið var hald lagt á bifreið mannsins, en að mati lögreglu hafði hann lítið við bílinn að gera.

Nokkur hávaði var í kringum skemmtistaði bæjarins og tilkynnt var um að afturrúður hefðu verið brotnar í þremur bílum í bænum. Tveimur þeirra hafði verið lagt í sömu götunni og telur lögregla líklegt að tilkynnt verði um fleiri slík mál og hvetur þá sem urðu varir við rúðubrotin að láta lögreglu vita.

Þá hafði lögregla afskipti af 16 ára pilti, sem ók um götur Selfoss. Pilturinn hafði tekið bíl foreldra sinna ófrjálsri hendi og ekið frá Þorlákshöfn ásamt tveimur vinum sínum á svipuðu reki.

Fyrri greinPróflaus og dópaður
Næsta greinKristjana, Jónas og Ómar í Merkigili