Lögregla var kölluð til vegna þriggja manna sem voru með háreysti og stympingar í íbúðarhverfi á Selfossi um miðja nótt um helgina.
Einn mannanna var ósáttur með afskipti lögreglu og neitaði að fara að fyrirmælum hennar. Hann var handtekinn, færður í fangageymslu og á yfir höfði sér kæru fyrir ölvun og ólæti á almannafæri.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.
Þar kemur líka fram að í nótt var gerði tilraun til að brjótast inn í bát sem lá við festar í höfninni í Þorlákshöfn. Þjófavarnakerfi í bátnum fór í gang og við það hafa þjófarnir lagt á flótta. Sá sem var að verki mun hafa reynt að brjóta sér leið inn um glugga.
Þá kom eldur upp í ruslagámi við kjötvinnsluna Krás í Gagnheiði á Selfossi í vikunni. Starfsmaður kjötvinnslunar náði að slökkva eldinn. Tjón var óverulegt. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá ösku sem glóð hafði leynst í. Askan var úr reykofni kjötvinnslunar.