Tveir af þeim sem slösuðust þegar smárúta valt á Biskupstungnabraut í gærmorgun eru enn á gjörgæsludeild Landspítalans.
Annar þeirra er í lífshættu og er haldið sofandi í öndunarvél.
Þriðji maðurinn sem fluttur var alvarlega slasaður til Reykjavíkur var fluttur á almenna deild í dag. Sex voru í bifreiðinni en þrír sluppu með minniháttar meiðsli.
Á Vísi kemur fram að lögreglan rannsaki meðal annars bílbeltanotkun fólksins. Talið er ólíklegt að þeir sem slösuðust mest hafi verið í bílbeltum þar sem bíllinn fór aðeins eina veltu og skemmdist ekki mikið.