Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði einn ölvaðan ökumann í liðinni viku og var sá á ferðinni á Selfossi síðastliðið fimmtudagskvöld.
Hann var frjáls ferða sinna eftir blóðsýnistöku og bíður mál hans nú niðurstöðu þeirrar rannsóknar.
Lögreglumenn hafa stöðvað umferð frá þorrablótum í umdæminu og látið ökumenn blása og eru góðu fréttirnar þær að enginn þeirra fjölmörgu sem blésu í áfengismæli um helgina reyndist ölvaður.
Þá var 21 ökumaður kærður fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Rúmlega helmingur þeirra var á ferðinni svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur. Þeir sem hraðast óku voru á 130 km/klst hraða eða meira á 90 km/klst vegi. Einn var stöðvaður innanbæjar á Selfossi á 75 km/klst hraða þar sem 50 km/klst er leyfður hraði.