Einstakir listmunir innblásnir af náttúrunni

Listamannahjónin María og Eggert í EM heima gallerí. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

EM heima gallerí opnaði á nýjum stað í gær að Eyravegi 31 á Selfossi, Gagnheiðarmegin. Þar má finna fjölbreytt úrval listmuna en það virðist gjörsamlega allt leika í höndum eigandanna, listamannahjónanna Maríu Ólafsdóttur og Eggerts Kristinssonar.

Blaðamaður sunnlenska.is hitti hjónin í galleríinu skömmu fyrir opnun í gær. María og Eggert tóku hlýlega og glaðlega á móti blaðamanni og var listamanns-áran í kringum hjónin sterk, enda eru þau bæði afkastamiklir og vinsælir listamenn.

María hefur mestmegnis verið að notast við listformin keramik og málverk þegar kemur að því að skapa en hún hefur í 30 ár unnið fjölbreytt listaverk sem prýða fjölmörg heimili landsmanna.

„Ég byrjaði í keramiki og síðan fer ég að mála. Myndirnar mínar verða svolítið keramískar. Ég hef verið að gera þetta með öðru. Ég hef ekki alveg verið alltaf að, en alltaf verið í listinni í yfir 30 ár,“ segir María.

Aðspurð hvað veiti henni helst innblástur segir hún erfitt að lýsa því. „Það eru aðallega form og litir. Og auðvitað mikið náttúran.“

Hjónin vinna mikið saman. Hér má til dæmis sjá skálar fremst á myndinni sem er hugverk og hönnun Maríu en Eggert bjó til rósirnar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Keramikið brennt eftir kúnstarinnar reglum
María hefur helst verið að gera skálar, kertastjaka og vasa úr keramiki. „Við erum að raku-brenna sem er svolítið sérstakt en það er gömul brennsluaðferð. Þá er keramikið fyrst hrábrennt í rafmagni við þúsund gráður, síðan eru settir glerungar á keramikið og þá er það gasbrennt utandyra. Því næst er keramikið tekið upp alveg 800-900 gráðu heitt og sett í járntunnur með eldsmat ofan í.“

„Hluturinn er svo settur ofan í tunnurnar og hann springur þegar hann kemur út í andrúmsloftið. Þá koma sprungur á hlutinn og svo lokar maður hann í tunnunni og kæfir reykinn sem verður svona brún-svartur. Sótið fer þá inn í sprungurnar. Þessir keramikhlutir eru meiri skrautmunir en ekki til að setja mat á,“ segir María en kertastjakar og vasar eru þeir munir sem eru hvað vinsælastir hjá henni.

Kertastjakarnir eru meðal þeira muna sem eru hvað vinsælastir í EM heima gallerí. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„En svo er ég með alls konar hluti sem eru brenndir með venjulegri rafmagnsbrennslu, eins og diskar og skálar og þess háttar,“ segir María sem vinnur yfirleitt með steinleir. „Mér finnst gott að vinna með hann því að ég bý mér til gifsmót og móta í þeim. Postulínið verður miklu fínna þegar maður notar steinleir.“

Vinsælt áningarstaður hjá vinkonuhópum
Upphaflega var EM heima gallerí staðsett heima hjá þeim hjónum en eftir að þau seldu húsið sitt og fluttu í nýtt ákváðu þau að hafa heimilið og vinnuna aðskilið.

„Þetta heitir ennþá EM heima gallerí þó að við séum ekki lengur með þetta heima. Hér eru vinnustofurnar okkar og galleríið verður ekki opið dags daglega en fólk getur alltaf droppað við þegar við erum hérna. Þegar gluggatjöldin eru uppi og stendur opið á hurðinni er fólki alveg óhætt að koma við.“

Vasarnir og fuglarnir hafa verið ákaflega vinsælir og er stærri gerðin af fuglunum uppseld um þessar mundir. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Við tökum á móti hópum og þá er best að hafa samband við okkur í gegnum heimasíðuna eða hringja í okkur,“ segir María en að hennar sögn hefur það einmitt verið mjög vinsælt hjá vinkonuhópum og saumaklúbbum að heimsækja galleríið. „Þó að það séu bara fjögurra, fimma manna hópur þá bjóðum alltaf upp á kristal og freyðivín og eitthvað kruðerí.“

Einn af fáum stálskartgripasmiðum í Evrópu
Eggert, sem er menntaður tannsmiður og gullsmiður, er mest í því að mála myndir og smíða skartgripi, auk þess að sjá um raku-brennsluna. „Við vinnum þetta rosa mikið saman,“ segir María.

„Skartið er úr stáli, það haggast aldrei, maður má fara með það í sund og það er alltaf eins,“ segir María og Eggert skýtur inn í: „Ég er einn af fáum í Evrópu sem gerir skartgripi úr stáli.“

„Eggert er að vinna með stál og blandar gull. Sumt er stál og gull. Ég er oft í skartgripagerð líka, við vinnum þetta saman. Og tuðum í hvort öðru líka,“ segir María og hlær.

Skartgripir úr stáli sem þykja ákaflega fallegir og þola auk þess allt mögulegt. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Þróa hugmyndirnar saman
Aðspurð hvort það sé aldrei áskorun að vinnan svona mikið saman að list segja þau svo ekki vera. „María fær kannski hugmynd og svo þróum við þetta saman. Þetta er bara mjög gott. Auðvitað erum við ekki alltaf sammála,“ segir Eggert.

María segir að þau hjónin máli mjög ólíkt. „En yfirleitt er það þannig að þegar ég byrja að mála þá byrjar hann og fer í mína litapallettu,“ segir María og hlær. „Þetta er mikil samvinna. Við erum saman allan sólarhringinn og vinnum saman,“ segja þau hjónin kát að lokum.

María og Eggert taka hlýlega á mót fólki í galleríinu sínu að Eyravegi 31 á Selfossi, Gagnheiðarmegin. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinSigurkarfan þremur sekúndum fyrir leikslok
Næsta greinFimmtán Íslandsmeistaratitlar og eitt mótsmet á MÍ 15-22 ára