Miðvikudaginn 14. desember verður haldinn íbúafundur í Ráðhúsi Ölfuss þar sem áform fiskeldisfyrirtækisins Geo Salmo verða kynnt.
„Geo Salmo hefur frá upphafi viljað vera í góðum tengslum við íbúa Ölfuss og hluti af því er að kynna áform fyrirtækisins vel fyrir þeim. Á fundinum verður farið yfir verkefnið, umfang, tímalínu og helstu tölur og eins mun flest starfsfólk verða á staðnum til þess að taka við spurningum og veita svör,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Geo Salmo, í samtali við sunnlenska.is.
Geo Salmo stefnir á eldi á umhverfisvænum hágæða laxi í lokuðu fiskeldiskerfi á landi. Mun þetta mun verða ein stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar og hefur norska fyrirtækið Artec Aqua verið fengið til þess að hanna eldisstöðina og stýra uppbyggingu hennar.
Ein stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar
Jens segir að íbúafundurinn sé mikilvægt tækifæri fyrir forsvarsfólk Geo Salmo að kynnast íbúum svæðisins.
„Einnig er þetta gott tækifæri fyrir íbúa til þess að komast í samband við okkur. Fyrir höndum er ein stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar, verkefni þar sem Geo Salmo hefur lagt mikla áherslu á að íbúar svæðisins njóti góðs af og geti eins og kostur er fengið færi á að taka þátt í. Við lofum skemmtilegum fundi og boðið verður upp á léttar veitingar og vonandi verður þarna gott tækifæri til að njóta lífsins saman í stund milli stríða í jólaundirbúningnum.“
Þorlákshöfn einn besti staður landsins
Náttúrulegar aðstæður og frábær tenging við flutningsleiðir gera Þorlákshöfn að einum besta stað landsins – og þó víðar væri leitað – til fiskeldis. „Suðurströndin í Ölfusi og út á Reykjanesskagann er með betri svæðum sem hugsast geta fyrir fiskeldi. Gnægð af hreinu vatni og jarðsjó, frábær tenging við flutningsleiðir og sterkur mannauður með þekkingu á sviðinu gerðu það að verkum að Geo Salmo sá snemma að álitlegt væri að byggja upp á þessu svæði. Íbúar bæjarins virðast ennfremur bjóða þessa starfsemi velkomna. Við töldum þessa þætti skapa einstakt tækifæri og viljum nýta það sem allra best.“
Félagið mun byggja laxeldisstöð á landi sunnan við Suðurstrandarveg, um 5 km vestan við hringtorgið. Ásamt fiskeldisstöðinni verður fjölbreytt tengd starfsemi, til dæmis fiskvinnsla, gróðurhús og önnur mannvirki ásamt gestastofu og veitingahúsi.
Framkvæmdir hefjast næsta vor
Fiskeldisstöðin mun geta framleitt rúmlega 20.000 tonn af laxi á ári þegar hún er fullbyggð en stefnt er að því að byggja hana í tveimur áföngum og mun sá fyrri vera um 7.000 tonn. „Stöðin er býsna stór að umfangi en mannvirkin ná yfir um 500 m langan reit milli Suðurstrandarvegar og sjávar. Hæð þeirra er þó mest um 12-15 m,“ segir Jens og bætir við að jarðvinna við fyrsta fasa eigi að hefjast á vormánuðum 2023.
„Fyrstu fiskeldiskerin er ráðgert að taka í notkun um tveimur árum seinna. Um það leyti er ætlunin að hefja vinnu við annan áfanga sem ráðgert er að komist í gagnið um 2029.“
250 manns við störf þegar mest lætur
Nýja fiskeldisstöðin mun skapa fjöldan allan af störfum í sveitarfélaginu. „Fullbyggð mun stöðin ásamt tengdri starfsemi að eiga að geta skapað um 130 ný störf, en ljóst er að afleidd störf verða mun fleiri þar sem töluverð tækifæri verða til þess að nýta ýmislegt sem fellur til í fiskeldi til frekari vinnslu og nýsköpunar, ásamt því sem töluverða þjónustu þarf við þau tæki og búnað sem finnast í stöðinni.“
„Á framkvæmdatímanum er líklegt að allt að 200-250 manns verði við störf á byggingarsvæðinu þegar mest lætur og verður það blanda erlendra og innlendra verktaka, en Geo Salmo hefur lagt áherslu á að nýta heimamenn og innlenda verktaka þar sem kostur er.“
Landeldi skapar ný tækifæri í rekstri og vöruþróun
Jens segir að landeldi hafi marga kosti fram yfir til dæmis sjóeldi. „Að ala fisk á landi þýðir að tækifæri skapast til þess að hafa mun meiri stjórn á öllu umhverfi sem fiskurinn elst í en í sjó. Þannig má stilla af hitastig, lýsingu og fleira og sjúkdómahætta er í lágmarki, að minnsta kosti þar sem notast er við lokuð ker, líkt og Geo Salmo áformar. Með þessu má tryggja frábær vaxtarskilyrði fyrir fiskinn og aðstæður þar sem vel fer um hann.“
„Auk þessa skapar landeldi fjölmörg ný tækifæri til að hafa betri stjórn á mengun og úrgangi og jafnvel nýta það til vinnslu á nýjum afurðum, til dæmis áburði. Margar leiðir eru til þess að vinna að stöðugum umbótum í landeldi með nýjum tækjum og aðferðum og þannig hægt að ná stöðugri og sterkari rekstri en í hefðbundnu eldi. Með góðri aðstöðu má tryggja gott starfsumhverfi sem vonandi laðar að besta fólkið.“
„Það sem hefur verið helsta hindrunin við að fara á land er einfaldlega kostnaður, enda margfalt dýrara að byggja upp landeldi en sjókvíaeldi af sömu stærð. Með ofangreinda kosti í huga má þó færa rök fyrir því að slík vegferð kunni að vera skynsamleg og með því að byggja upp og samþætta bestu mögulegu tækni eygir Geo Salmo að ná stöðugri hágæða framleiðslu sem meðal annars getur skapað tækifæri til þess að fá hærra verð fyrir vöruna. Á Íslandi eru ennfremur nokkur öflug sjókvíaeldisfyrirtæki sem hafa náð að marka sér stöðu á sínum svæðum, og þau líklega betur til þess fallin að sinna slíku eldi en nýliði á markaðnum.“
Með metnaðarfull umhverfismarkmið
Geo Salmo er sérlega umhugað um alla umhverfisþætti sem snúa að fiskeldisstöðinni. „Geo Salmo hefur metnaðarfull markmið um að framleiðsla félagsins verði sem næst kolefnishlutleysi og hægt er og þar með einar umhverfisvænustu dýraafurðir sem völ er á. Fyrirtækið mun nota bestu síun sem völ er á til þess að lágmarka mengun í affalli og beita öllum ráðum til þess að tryggja að umhverfisáhrif í nærumhverfi séu sem minnst,“ segir Jens.
„Útlit bygginga verður reynt að tryggja að falli vel að umhverfi og að mannvirkin verði aðlaðandi á svæðinu. Að lokum er fyrirtækið í sífelldri leit að nýjum leiðum til þess að færa úrgang félagsins í nýtanlegt form og fyrirtækið stefnir þar af leiðandi að því að standa framarlega í hringrásarhagkerfinu.“
Þakklát fyrir móttökurnar
„Starfsfólk Geo Salmo er afar þakklátt fyrir frábærar móttökur í sveitarfélaginu og vill tryggja að íbúar þess njóti góðs af verkefninu, bæði gegnum efnahagsleg áhrif en einnig sem nágrannar. Við hvetjum íbúa til að fjölmenna á fundinn okkar, bæði þau sem eru spennt fyrir verkefninu en ekki síður þau sem hafa aðrar skoðanir og vilja kynna sér málið,“ segir Jens að lokum.