Söngkonan Anna Hansen frá Leirubakka í Landsveit hefur verið að gera það gott sem raddþjálfari danska í X-Factor.
„Martin hafði heyrt um mig úr bransanum, að ég væri frábær söngkennari og kom í söngtíma til að sannreyna það sjálfur. Það gekk svona líka vel og eftir fyrsta tímann sagði hann mér að hann væri að leita að manneskju í eitthvað top secret verkefni sem hann mætti ekki segja mér hvað væri, þar sem það væri ekki opinbert ennþá, en hann væri nokkuð viss um að hann vildi ráða mig,“ segir Anna í samtali við sunnlenska.is.
Umræddur Martin heitir fullu nafni Martin Jensen og er plötusnúður og raftónlistarmaður og þykir frekar stórt nafn innan þeirrar tónlistargreinar.
Óvænt tækifæri í kjölfar COVID-19
Anna segir að hún hafi haft smá grun um að þetta leyniverkefni væri einhver sjónvarpsþáttur en vissi þó ekki hvaða þáttur það væri. „Martin var svo í tímum hjá mér í smá tíma og að lokum var þetta svo opinberað og ég skrifaði undir samning.“
Þekktasta lag Martins er lagið Solo Dance sem hefur mikið verið spilað út um allan heim. „Hann hefur líka endurhljóðblandað mörg lög og gefið út lög með tónlistarmönnum eins og Ed Sheeran, James Arthur, Jason Derulo og fleirum. Martin er með 12 milljónir hlustendur mánaðarlega og yfir milljarð streyma á Spotify og hefur frá árinu 2017 flogið um allan heim og troðið upp á helstu hátíðum heims. Þegar COVID krísan kom í fyrra var það auðvitað af dagskránni og hann „kyrrsettur“ í Danmörku en í staðinn fékk hann boð um að vera dómari í X-Factor. Heppilegt fyrir mig!“ segir Anna.
Söngkennari með áratuga reynslu
Þetta er í fyrsta sinn sem Anna starfar sem raddþjálfari fyrir X-Factor. „Ég hef hins vegar unnið við söngkennslu síðustu tíu árin á hinum ýmsu stöðum, meðal annars í Complete Vocal Institute, skólanum sem ég er sjálf menntuð við og margir íslenskir söngvarar þekkja vel. Kennararnir þar hafa margir unnið við sjónvarpsþættina og ég hef heyrt af því starfi frá þeim, þannig þetta var alveg draumur hjá mér að fá að prófa þetta. Eitt af atriðunum á „bucket listanum“,“ segir Anna og brosir.
„Þetta er búið að ganga mjög vel og hefur verið ótrúlega gaman. Þáttakendurnir okkar hafa tekið þvílíkum framförum bæði raddlega en líka í framkomu og margir vinir mínir sem hafa sent mér skilaboð og sagt mér hvað þau heyra mikinn mun eftir að við fórum að þjálfa þau.“
Oft miklar tilfinningar undir
„Martin er mjög metnaðarfullur maður og þar sem þetta er í fyrsta skipti sem hann er dómari var hann mjög ákveðinn í því að keppendurnir okkar væru í toppþjálfun og tilbúin í beinu útsendingarnar í lok febrúar. Við byrjuðum vinnuna um áramótin, áheyrnarprufur og bootcamp prufurnar voru í haust þannig við erum búin að vera að vinna með okkar þáttakendum síðan í nóvember. Vinnan hófst svo fyrir alvöru þegar ég kom heim úr jólafríi á Íslandi í byrjun janúar,“ segir Anna.
„Martin býr niðri í bæ, við Strikið, og er með stóra íbúð og stúdíó þar. Þannig að við höfum bara verið í vinnubúbblu heima hjá honum sex daga vikunnar að undirbúa þau fyrir beinu útsendingarnar. Teymið samanstendur af Martin, mér, Jeppe sem sér um að útsetja fyrir hljómsveitina, tveimur stílistum, tveimur umboðsmönnum og svo auðvitað þremur þáttakendum.“
„Auðvitað er ekki hjá því komist þegar margir einstaklingar vinna saman allan daginn í litlu rými að það komi upp eitthvað smá drama eða erfiðleikar. Þátttakendurnir hafa verið stressuð og fundist erfitt að vera kastað inn í að vinna eins og atvinnufólk í bransanum og fundist erfitt að læra nýja hluti á hverjum degi. Svo hafa komið upp efasemdir um hvort lagavalið sé rétt, hvernig útsetningarnar eigi að vera og svo framvegis. En það er líka bara hluti af þessu listræna ferli, sterkar skoðanir og oft miklar tilfinningar undir. Það er partur af þessu,“ segir Anna.
Algjör taugahrúga fyrsta kvöldið
„Beinu útsendingarnar hófust svo núna í lok febrúar, þar sem við fórum loksins og æfðum á sjálfu sjónvarpssettinu og sviðinu og hittum alla hina sem vinna bak við þáttinn. Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað gengur vel að halda þættinum gangandi þrátt fyrir miklar COVID hömlur í Danmörku. Vanalega eru nokkur hundruð manns í sjónvarpssal en nú eru bara áhorfendur á Zoom í salnum.“
Anna segir að það hafi komið henni mest á óvart hvað hún var sjálf stressuð kvöldið sem fyrsta beina útsendingin var. „Ég mæti fyrr til þess að hita aðeins upp með þáttakendunum og minna þau á hvað við erum búin að vera að æfa og svo framvegis. Að mörgu leyti erum við bara hálfgerðir sálfræðingar fyrir þau og höldum í höndina á þeim áður en þau fara á sviðið. Ekkert þeirra hefur staðið á sviði áður, þannig þetta er auðvitað stórt skref að stíga á svið í beinni útsendingu.“
„Þegar þátturinn byrjar sitja öll teymin og fólkið á bak við þáttinn baksviðs og horfir á þáttinn saman á stórum skjá. Ég var algjör taugahrúga fyrsta kvöldið! Gat varla horft á þau og var svo hrædd um að þau myndu gleyma texta eða klikka á háu tónunum. Þetta var miklu meira stressandi heldur en ef ég hefði sjálf staðið á sviðinu. Það var mjög skrýtin upplifun að vera svona stressuð fyrir annarra hönd. Mamma hló að mér þegar ég sagði henni það, og sagði að það væri svona að fara og horfa á börnin sín keppa í fyrsta skipti eða spila á skólatónleikum. Maður veit hvar þau gætu klikkað en getur ekki stjórnað því. Þetta er sérstakt,“ segir Anna og brosir.
„Luftgítargellan“
Aðspurð hvort hún upplifi að fólk þekki hana á götum úti eftir vinnuna við þættina segir Anna ekki svo vera. „Ég er bara búin að vinna á bakvið tjöldin. Það sem fæstir kannski vita er, að á bakvið alla sjónvarpsþætti er heill hellingur af fólki sem kemur aldrei á skjáinn. Ég var reyndar með í innslaginu hjá einum þátttakandanum í gær, stóð á sviðinu á einni æfingunni og spilaði á luftgítar til að sjá hvernig það kæmi út að planta gítarleikaranum á sviðið en ekki í hljómsveitargryfjuna. Það verður spennandi að sjá hvort einhverjir þekki luftgítargelluna,“ segir Anna og hlær. „Reyndar er það til umræðu að ég verði kannski með í bakröddum á sviðinu í þessari viku, en fer eftir því hvað útsetningu við veljum. Það væri auðvitað mjög gaman.“
Þrátt fyrir COVID-19 hefur Anna haft í nægu að snúast. „COVID hefur auðvitað haft mikil áhrif, þó svo að ég hafi verið svo heppin að geta bara tekið meiri kennslu og svo fengið þetta boð um X-Factor. Danska ríkisstjórnin sá líka um tónlistarfólk í fyrri hluta krísunnar, þar sem sjálfstætt starfandi tónlistarmenn gátu sótt um styrk við vinnutapi. Ég gaf annars út lag fyrir ári síðan og í kjölfarið fór ég til Nashville til að semja tónlist og var búin að koma mér upp ágætis tengslaneti þar.“
„Planið var svo að fylgja því eftir, fara aftur út um páskana og svo í sumar og ég var meira að segja búin að fá peningastyrk til þess frá Koda, sem er danska STEF. Þau plön duttu auðvitað upp fyrir í óákveðinn tíma vegna COVID og Bandaríkin hafa heldur ekki verið mjög eftirsóknarverður staður með Black Life Matters og allt hitt sem er í gangi þar. Það bíður betri tíma,“ segir Anna.
Mikil heimþrá í kófinu
Anna segir að í staðinn hafi hún byrjað að semja lög með fólki heima í Danmörku. „Ég er með nokkur lög tilbúin sem koma út eftir nokkrar vikur. Eitt þeirra, sem verður fyrsta lagið sem kemur út, heitir „Home“, og var samið í kófinu þegar heimurinn var í rugli og mikil heimþrá og Íslandsþrá í gangi. Ég tók einmitt upp tónlistarmyndband við það í jólafríinu áður en ég fór út.“
Það reyndist Önnu erfitt þegar ekki var lengur hægt að ganga að því vísu að fljúga heim til Íslands vegna COVID-19. „Ég er búin að búa í Kaupmannahöfn í þrettán ár og eitt er hvað það er stundum erfitt að vera vera búsett í útlöndum og vera langt frá fjölskyldunni og vinum, en þegar það er ekki einu sinni í boði að hoppa upp í flug hvenær sem mann langar heim og maður veit ekki hvenær maður kemst heim næst verður fjarlægðin ansi mikil.“
Anna heimsótti svo klakann loksins í desember síðastliðnum. „Ég get ekki lýst því hvað það var gott að komast loksins heim í jólafrí! Við vorum kannski líka aðeins of góðu vön áður en þetta skall allt á. En það eru sem betur fer spennandi verkefni á döfinni, hér er talað um að allir eigi að vera bólusettir í lok júlí, þannig þessi faraldur fer vonandi að verða búinn bráðum. Þegar X-Factor klárast gef ég út nýja tónlist og mun koma fram á tónleikum bæði í sumar og svo á nýrri stórri hátíð í Odense í haust, þar sem fram kemur blanda af mörgum bestu tónlistamönnum Danmerkur og svo koma um 30 til 40 lagahöfundar frá Nashville, bæði til að troða upp en líka til að halda lagasmíða „workshop“ og semja tónlist. Framtíðin er björt, er það ekki?“ segir Anna að lokum.
Áhugasamir geta fylgst með Önnu á samfélagsmiðlum, bæði á Facebook og Instagram-síðunni hennar. Einnig er hægt að hlusta á tónlist hennar á Spotify.