Eitt leikskólabarn á Álfheimum á Selfossi hefur greinst smitað af COVID-19 en leikskólinn hefur verið lokaður síðan á þriðjudag eftir að starfsmaður greindist með kórónuveiruna á mánudag.
Jóhanna Þórhallsdóttir, leikskólastjóri Álfheima, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is en hún segir að enn sé óljóst hvernig skólastarfi verður háttað næstu daga. Álfheimar voru lokaðir í dag vegna sótthreinsunar og þrifa.
Öll börn á tveimur deildum, Álfasteini og Dvergasteini, eru í sóttkví til og með næsta mánudags, þar sem þau voru útsett fyrir smiti. Þá eru einnig allir starfsmenn á Mánasteini í sóttkví.