Einungis eitt umferðarslys með slysum á fólki var tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku en þá varð árekstur á Suðurlandsvegi, við áningastað við Klifanda.
Þar hugðist ökumaður bifreiðar taka fram úr bifreið sem beygt var til vinstri inn á áningastaðinn. Meiðsli ökumanna og farþega eru talin minniháttar.
Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að fimm sinnum hafi verið tilkynnt um að ekið hafi verið á sauðfé við Suðurlandsveg. Þá var í tvígang tilkynnt um lausa nautgripi við vegi og í tvígang um laus hross.
Tveir hestamenn meiddust þegar þeir féllu af baki síðastliðinn föstudag, annar á Selfossi en hinn skammt frá Skálholti.