Rafmagnshönnun er lokið og framkvæmdir á vegum RARIK hafnar við þrjú ný hverfi á Selfossi þar sem stefnt er að því að rísi alls 900 íbúðir auk 30 iðnaðar- og atvinnuhúsalóða.
Í tilkynningu frá RARIK segir að þetta sé eitt stærsta verkefni í þéttbýli sem RARIK hefur unnið að í langan tíma.
Framkvæmdir eru hafnar við stofnkerfi annars áfanga Björkurstykkis en þar er áætlað að byggja yfir 100 íbúðir auk 20 lóða fyrir iðnaðar- og þjónustuhúsnæði. Vestan Eyrarbakkavegar, við Víkurheiði, er einnig unnið að lóðum fyrir um 10 stór iðnaðarhús á vegum Sveitarfélagsins Árborgar. Þar fyrir austan, í svonefndri Austurbyggð eru hafnar framkvæmdir á svæði þar sem ráðgert er að verði um 500 íbúðir. Fyrir áramót verður síðan byrjað að leggja stofnkerfi í fyrsta áfanga Jórvíkur sem er nýtt byggingasvæði vestan við Björkurstykkið, þar sem gert er ráð fyrir 320 íbúðum.
Sem fyrr segir er búið að hanna rafmagn fyrir öll þessi svæði og verða settar upp átta dreifistöðvar til að þjóna íbúum.