Landsmót hestamanna hefst á sunnudaginn, 1. júlí, á keppnissvæði Fáks í Víðidal og er eftirvæntingin mikil meðal hestamanna og áhugafólks um íslenska hestinn.
Þar verður glæsileg gæðingakeppni þar sem bestu knapar og hestar landsins etja kappi og sýnd fremstu kynbótahross landsins. Jafnframt verður boðið upp á fjölbreytta fræðslu- og skemmtidagskrá fyrir börn og fullorðna alla daga fram að mótslokum, sunnudaginn 8. júlí.
Von á 10-12.000 gestum
Landsmót eru stærstu viðburðir sem haldnir eru hérlendis í kringum íslenska hestinn. Fjöldi erlendra gesta sækir landið sérstaklega heim til að mæta á Landsmót en alls er búist við um 10.000 gestum á mótið í ár, þar af um fjórðungi erlendis frá. Mótið, sem er það 23. í röðinni er nú haldið í Reykjavík í þriðja sinn en þar hafa áður verið haldin mót árin 2000 og 2012.
Bestu hestar landsins saman komnir
Á Landsmóti koma saman bestu hestar landsins til keppni og sýninga, auk þess sem þar fara fram kappreiðar, töltkeppni, heiðursverðlaunasýningar kynbótahrossa og sýningar ræktunarbúa. Margir bíða eftirvæntingarfullir eftir sýningu kynbótahrossa, enda hafa þegar verið slegin tvö heimsmet á kynbótasýningum í aðdraganda mótsins. Alls eiga 132 hross rétt til þátttöku í fullorðinsflokkum í gæðingakeppninni og er það um 15% aukning frá síðasta Landsmóti á Hólum 2016.
Keppni í barna- og unglingaflokkum hefst strax á sunnudag, á fyrsta degi mótsins og fyrri umferð kappreiða er á þriðjudagskvöldinu. Formleg mótssetning er kl. 19:30-20:00, fimmtudaginn 5. júlí með hópreið þátttakenda frá öllum hestamannafélögunum á Landsmóti.
Sveitaböll, gítarpartý og sérstakur fjölskyldudagur
Tónlistin er aldrei langt undan þegar hestafólk kemur saman og á Landsmóti verða alvöru sveitaböll á bæði föstudags- og laugardagskvöld og gítarpartý á hverju kvöldi frá þriðjudegi til laugardags. Þar troða upp Grétar og Hebbi, Stebbi Jak, Sigvaldi Helgi, Salka Sól og Magni Ásgeirsson, sem jafnframt er tónlistarstjóri mótsins. Á kántrítónleikum og dansleik í Reiðhöllinni á föstudagskvöldinu halda uppi fjörinu Axel Ó & Co, ásamt Rúnari F, Helga Björns og Reiðmönnum vindanna. Hljómsveitin Albatross spilar svo á stórdansleiknum í Reiðhöllinni á laugardagskvöld, ásamt hinum valinkunnu söngvurum Sverri Bergmann, Magna, Sölku Sól og Röggu Gísla.
Sérstök leiksvæði, með hoppuköstulum og fleiru skemmtilegu fyrir börnin, eru opin alla mótsdagana. Leikhópurinn Lotta lítur í heimsókn í Mathöllina í Reiðhöllinni kl. 14 á fyrsta degi mótsins, sunnudaginn 1. júlí, sem er sérstakur fjölskyldudagur og frítt inn á mótið þann dag fyrir alla. Rappararnir vinsælu, Jói Pé og Króli, verða einnig á svæðinu á fjölskyldudeginum og koma fram á balli fyrir börnin í Reiðhöllinni/Mathöll sem hefst kl. 19.
Mathöll í Reiðhöllinni og HM á risaskjá
Enginn verður svangur á Landsmótinu því Reiðhöllinni verður breytt í í sannkallaða Mathöll mótsdagana. Bæði inni og á sölustöðum utan við höllina, þar sem fjölbreytt úrval af götumat verður í boði, ættu því allir að geta fundið mat við sitt hæfi. Þá verður sýnt beint frá bæði 16 og 8 liða úrslitum HM í fótbolta á 15 fermetra risaskjá í tjaldi á mótssvæðinu. Þess á milli verður svo hægt að fylgjast með streymi frá keppni á Landsmótinu á risaskjánum.
Tjaldsstæði standa öllum mótsgestum til boða auk þess sem gestir geta keypt aðgang að ákveðnum tjaldstæðareitum þar sem aðgengi er að rafmagni.
Miðasala á Landsmót stendur yfir á vefnum landsmot.is og tix.is. Hægt er að kaupa bæði viku- og helgarpassa og einnig dagsmiða, sem gilda einn ákveðinn dag.