Ekið var á hross á Landeyjavegi á sunnudagskvöld. Ekki urðu slys á fólki en bíllinn skemmdist töluvert og aflífa varð hrossið sem ekið var á.
Fjöldi tilkynninga um lausagöngu dýra, hrossa og nautgripa kom inn til lögreglunnar á Hvolsvelli í vikunni. Ástæðan var oftast sú að snjóað hafði í ristarhlið og þau því ekki gert tilætlað gagn. Lögregla vill minna eigendur og umráðmenn dýra á útigangi á að hafa þetta í huga nú þegar farið er að snjóa þannig að komast megi hjá slysum og óhöppum sökum þess.
Í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli kemur fram að nokkur umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni til lögreglu og tildrög þeirra má rekja til snjóa og hálku á vegum en mikið hefur snjóað, eins leituðu ökumenn aðstoðar lögreglu og björgunarsveita sem lent höfðu í vanræðum eftir að hafa misst bifreiðar sínar útaf vegum.