Um klukkan eitt síðastliðinn föstudag varð maður fyrir bifreið á Biskupstungnabraut skammt ofan við Brúará. Maðurinn var starfsmaður verktaka sem vinnur að vegabótum á vegarkaflanum.
Hann var inni á veginum við mælingar þegar bifreið var ekið til suðvesturs. Sól var mjög lágt á lofti á móti ökumanni sem ekki sá til mannsins fyrr en hann varð fyrir bifreiðinni.
Maðurinn slasaðist illa, handleggsbrotnaði og hlaut mar og bólgur. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild Landspítala þar sem gert var að meiðslum hans. Ökumanninum var komið undir handleiðslu áfallateymis á heilsugæslunni á Selfossi.
Þá féllu tveir erlendir ferðamenn í hálku í uppsveitum Árnessýslu á föstudag. Annars vegar var það 69 ára karl sem lærbrotnaði við fossinn Faxa í Tungufljóti og hins vegar 58 ára kona sem rann til og úlnliðsbrotnaði við Gullfoss. Bæði voru flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala.