Nokkrir bílar hafa farið útaf veginum um Hellisheiði og Þrengsli í morgun en slæmt veður er á heiðinni og afleitt skyggni.
Vegagerðin varar ökumenn við því að leggja á heiðina þar sem þar sé lítið sem ekkert ferðaveður. Hjálparsveitarmenn úr Hveragerði eru nú á Heiðinni til þess að aðstoða ökumenn.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi hefur fimm bílum verið ekið útaf veginum, milli Kambabrúnar og Hveradala, en engin slys hafa orðið á fólki og ekkert tjón orðið á bílum. Sömu sögu er að segja úr Þrengslunum þar sem að minnsta kosti fjórir bílar eru utan vegar.
Áður en Hjálparsveit skáta í Hveragerði var kölluð út höfðu ökumenn fengið aðstoð ýmist frá lögreglu eða öðrum vegfarendum þannig að enginn þurfti að láta fyrirberast lengi í bíl sínum.
Vegagerðin saltar nú veginn en vegfarendur eru beðnir um að sýna fyllstu aðgát.