Það er bjartur og fallegur dagur á Suðurlandi í dag en gangi veðurspár eftir verður ekkert ferðaveður í nótt, á morgun og fram á mánudag.
Þetta á við allt umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi frá Litlu kaffistofunni í vestri að Hvalnesskriðum í austri.
Búast má við að hviður við fjöll sunnan og suðvestanlands geti farið yfir 40 m/s í nótt og á morgun. Versta veðrið verður sunnanlands og mikill vindstyrkur ásamt snjókomu og skafrenningi þýðir að skyggni verður lítið sem ekkert og ekkert ferðaveður.
Á mánudaginn er útlit fyrir hvassa norðanátt og ekki er útlit fyrir að lægi að gagni á landinu fyrr en á þriðjudag.