Ásberg Jónsson fór í nótt ásamt hópi ferðaþjónustufólks að eldstöðinni í Grímsvötnum á Vatnajökli. Hann fór ansi nálægt gígnum og segir aðeins gufustróka stíga upp úr gígnum. Gosið hafi fjarað út.
Rætt var við Ásberg Jónsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
„Það sem beið okkar var í rauninni bara að þetta var í rauninni búið, það voru þarna gufustrókar sem komu upp úr þessu en lítið meira en það, ekkert hraun að sjá og engin aska, ja nema sú sem er allt í kringum gosstöðvarnar,“ segir Ásberg.
Ásberg segir gufustrókinn kannski hundrað metra háan. Hann segir að allt sé svart sunnan megin við gosstöðvarnar, norðan megin sjáist í hvítan jökul. Sunnan megin sé þykkt svart öskulag.
„Ég er ekki vísindamaður en miðað við það sem við sáum þá held ég að við getum með okkar þekkingu fullyrt að þetta sé búið“, segir Ásberg.
RÚV