Að sögn Heimis Guðmundssonar hjá Trésmiðju Heimis í Þorlákshöfn eru allar horfur á því að verkefnastaða þeirra verði góð í sumar.
Heimir hefur séð um að byggja þau einbýlishús sem hafa verið byggð í Þorlákshöfn að undanförnu og segir hann að ekki hafi verið vandamál að selja húsin. ,,Það eru bara þessi yfirveðsettu hús bankanna sem gengur illa að selja,“ sagði Heimir.
Heimir lauk við hús í nóvember og seldi það. Hann er að ljúka við að klæða þak á öðru og er að steypa plötu á því þriðja. Þá sagðist hann hafa nýlega keypt sökkla undir hús þannig að hann verður með þrjú einbýlishús í smíðum á árinu.
Öll húsin eru í Básahrauni, nýju hverfi í Þorlákshöfn þar sem Heimir býr sjálfur. ,,Ég sé ekki annað en að það verði áfram þörf fyrir húsnæði hér í Þorlákshöfn,“ sagði Heimir sem einnig smíðar sumarhús og þjónustar sumarhúsaeigendur á Suðurlandi. Hjá fyrirtækinu starfa tíu manns og sagði Heimir að hugsanlega yrði fjölgað um einn til tvo í sumar.