Ekkert pláss fyrir áhöld til íþróttakennslu

Skólanefnd Gnúpverjahrepps hefur ítrekað ósk sína eftir bættri aðstöðu fyrir íþróttakennslu og íþróttaáhöld í félagsheimilinu Árnesi. Ekki er hægt að kaupa áhöld til íþróttakennslu vegna geymsluleysis.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir félagsheimilið Árnes, sem nú er orðið 40 ára gamalt hafa verið barn síns tíma og því sé geymslupláss lítið og aðstaða fyrir starfsfólk óhentug.

Hugmyndir um litla viðbyggingu við Árnes voru settar á blað þegar unnið var að uppsetningu Þjórsárstofu þar sem aðstaða yrði fyrir íþróttaáhöld og ýmislegt er viðkæmi rekstri hússins. Þessar framkvæmdir hafa ekki verið tímasettar en verða skoðaðar með tíð og tíma segir Gunnar.

Gunnar tekur fram að íþróttaaðstaðan sé fín þó vissulega megi alltaf gera betur og hann bendir á að íþróttakennarinn hafi til að mynda ekkert kvartað yfir aðstöðunni.

Fyrri greinRÚV gefur út myndina um Reyni Pétur
Næsta greinStóðhestaveisla í Ölfushöllinni