Framboð Framsóknar og óháðra í Árborg gengur óbundið til sveitarstjórnarkosninganna næstkomandi laugardag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Helgi Sigurður Haraldsson, oddviti framboðsins, sendi frá sér í morgun.
„Að gefnu tilefni vegna þess sem bæði fulltrúar annarra framboða í Árborg og ótilgreindir aðilar í sveitarfélaginu hafa látið hafa eftir sér við kjósendur undanfarna daga, skal skýrt tekið fram að hvorki undirritaður né framboð Framsóknar og óháðra, hefur gert neitt samkomulag við framboð Sjálfstæðismanna um að mynda nýjan meirihluta eftir kosningar, missi þeir sinn meirihluta,“ segir í yfirlýsingu Helga.
„Við hjá Framsókn og óháðum erum tilbúin að starfa með öllum þeim sem vilja taka undir með okkar stefnumálum. Okkar markmið er að horfa til framtíðar og koma stefnumálum okkar í framkvæmd,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.