„Ekkert sem sameinar fólk jafn mikið og tónlist“

Frá Nashville Nights á Sviðinu sl. vor. Ljósmynd/Jóhann Þór Línberg Kristjánsson.

Dagana 27. og 28. febrúar verður sannkölluð kántrí stemning á Suðurlandi. Þá verður Nashville Nights haldið í annað sinn á Midgard Base Camp á Hvolsvelli og á Sviðinu á Selfossi.

Á tónleikunum koma fram þrír söngvarar og lagahöfundar frá Nashville ásamt sunnlensku tónlistarkonunum og systrunum Fríðu og Önnu Hansen í svokölluðum Writers Rounds.

Þetta gekk svo vel síðast og var svo gaman að við vorum öll sammála um að reyna þetta aftur. Síðast vissum við ekki hvort það væri markaður fyrir þessu, en þar sem það var húsfyllir á báðum stöðum síðast, þá held ég að við getum verið viss um að svo sé!“ segir Anna Hansen í samtali við sunnlenska.is.

„Tónlistarfólkið sem kom frá Bandaríkjunum kolféll líka bæði fyrir landinu sem og áhorfendunum. Við erum svo að vona að þetta geti orðið allavega árlegur viðburður eða jafnvel meira. Þetta gekk sjúklega vel í fyrra en það var uppselt á báða tónleikana, og bæði áhorfendur og starfsfólk staðanna sammála um að þetta hefði verið æði.“

Einstök tónlistarveisla
Nashville eða Music City, eins og borgin er kölluð, er einna þekktust fyrir að vera höfuðborg kántrítónlistarinnar. Þar búa fjölmargir lagahöfundar og söngvarar, sem margir hverjir semja smelli fyrir og með stórstjörnum, og semja lögin sem fara á flug um netheima og samfélagsmiðla. Á hverjum degi flykkist fólk hvaðanæva að úr heiminum til Nashville til að upplifa ekta Writers Rounds á stöðum á borð við The Bluebird Cafe, 3rd & Lindsley, The Listening Room og The Local, og nú er röðin komin að Midgard Base Camp á Hvolsvelli og Sviðinu á Selfossi.

Writers Rounds eru tónleikar, þar sem listamennirnir skiptast á að spila lögin sín, ásamt því að veita áhorfendum innsýn í það hvernig lögin urðu til og ferlið sem þarf til að þau nái eyrum fólks um allan heim. Þetta er fléttað inn í frábæran flutning atvinnusöngvara og lagahöfunda í einstakri tónlistarveislu, í ekta Nashville stíl.

Uppselt var á báða tónleikana í fyrra. Ljósmynd/Jóhann Þór Línberg Kristjánsson.

Fólk má búast við því að tárast örlítið
Anna segir að tónleikarnir verða á persónulegu nótunum. „Við Fríða systir og svo þrír tónlistarmenn sem við þekkjum frá Nashville munum öll sitja á sviðinu og skiptumst á að spila lögin okkar. Við segjum frá því hvernig þau urðu til og alls konar skemmtilegar sögur „úr bransanum“.“

„Fólk fær tækifæri til að heyra hvernig það er að vinna við tónlist, það verða sagðir brandarar og fólk má búast við því að tárast kannski örlítið líka. Svo í lokin myndaðist svo skemmtileg stemning þar sem við fengum áhorfendur til að taka undir með okkur í samsöng sem var æðislega gaman. Það er ekkert sem sameinar fólk jafn mikið og tónlist.“

„Ég mæli með að fólk kaupi miða áður en það verður of seint! Midgard Hvolsvelli á fimmtudag, Sviðið Selfossi á föstudag og svo Hljómahöll í Reykjanesbæ á laugardagskvöld. Ekki missa af þessu,“ segir Anna að lokum.

Nashville Nights á Midgard Hvolsvelli.

Nashville Nights á Sviðinu Selfossi.

Fyrri greinNý lögreglustöð opnuð í Vík í Mýrdal
Næsta greinEgill með silfur á meistaramótinu