Ekkert er smalað á Suðurlandi í dag vegna veðurs. Leitarmenn á afrétt Gnúpverja bíða í leitarmannakofa í Bjarnarlækjarbotnum og munu ekki hreyfa sig neitt í dag.
Þetta kemur fram á mbl.is og þar segir Ari Björn Thorarensen, sem tekur þátt í leitinni, segir hugsanlegt að það þurfi að fresta réttum á Suðurlandi sem fram eiga að fara um næstu helgi.
„Hér er spænurok og við bíðum bara af okkur veðrið,“ sagði Ari í samtali við mbl.is í morgun. Hann segir að sama staða sé hjá fjallmönnum úr Hrunamannahreppi og úr Biskupstungnahreppi.
Ari sagði að það hefði snjóað í nótt en það ekki verið mikil úrkoma í morgun. Rokið væri hins vegar svo mikið að það væri engin leið að standa í smölun við þessar aðstæður.