Ekki aka utan vega!

Nú þegar vorið er á næsta leiti, aukast ferðir manna um hálendið.

Af því tilefni vill Ferðaklúbburinn 4×4 vekja athygli jeppaeigenda á því að fara sérstaklega varlega á meðan snjóa er að leysa og frost er að fara úr jörðu og virða í einu og öllu bann við hvers konar akstri utan vega.

Á samskiptavefnum Facebook birtist færsla í gær þar sem vakin var athygli á ljótum umhverfisspjöllum eftir utanvegakstur á Úlfarsfelli en þar hefur einhver jeppaeigandi sýnt algert virðingarleysi gagnvart náttúru svæðisins. Það skal sérstaklega tekið fram að umræddur bílstjóri er ekki félagsmaður í Ferðaklúbbnum 4×4.

Í fréttatilkynningu frá klúbbnum segir að þeir ökumenn sem lítilsvirða landið á þann hátt sem sjá mátti á Facebook í gær, spilli alvarlega fyrir málstað þeirra sem vilja ferðast um Ísland með ábyrgum hætti.

Stjórn klúbbsins minnir enn og aftur á að svona umgengni er með öllu ólíðandi og hvetur félagsmenn sína til að berjast gegn ólöglegum utanvegaakstri og tilkynna slíkt ávallt til lögreglu ef þeir verða vitni að slíku.

Fyrri greinStarfsmenn ÍG gáfu dósasjóðinn
Næsta greinÞrettán teknir fyrir hraðakstur