Ekki alvarleg slys á fólki

Skeiða- og Hrunamannavegur er nú lokaður við Stóru-Laxár vegna umferðaróhapps. Fólksbíll og vörubíll lentu í árekstri við brúnna um klukkan tíu í morgun.

Brúin er einbreið en vöruflutningabíllinn var á brúnni þegar fólksbíl var ekið inn á hana úr gagnstæðri átt, með þeim afleiðingum að fólksbíllinn lenti framan á vörubílnum.

Mikill viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum vegna slyssins en sex manns voru í bifreiðunum. Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum var sendur á vettvang, lögregla, sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auk vettvangshjálparteymis frá Flúðum.

Allir þeir sem voru í fólksbifreiðinni voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til nánari skoðunar en svo virðist sem að ekki hafi orðið alvarlegt slys á fólki við áreksturinn.

Nú er unnið að því að koma vörubílnum af brúnni og verður vegurinn lokaður vegna þess um óákveðinn tíma.

UPPFÆRT 11:07

Fyrri grein„Svarar vandræðalegum spurningum“
Næsta grein„Hlakka til að eyða jólunum með allskonar fólki“