Húsið Aðalból við Hrísholt á Selfossi hefur verið auglýst til sölu, en ekki eru allir á eitt sáttir við það. Í húsinu, sem er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga og Sveitarfélagsins Árborgar, er starfsemi AA-samtakanna á Selfossi.
Innan þess hóps er að finna þá sem telja mjög óheppilegt að flytja starfsemi samtakanna, sem verið hefur þar í meira en tvo áratugi.
Baldur Róbertsson á Selfossi samdi á sínum tíma við bæjaryfirvöld á Selfossi um að samtökin fengju að vera í húsinu án þess að greiða sérstaklega fyrir slíkt. Hann segir ýmsar ástæður fyrir því að þetta húsnæði sé kjörið undir slíka starfsemi.
Margir fundir í viku
„Mér vitanlega er ekki búið að segja samtökunum upp húsnæðinu,“ segir Baldur. „Í öðru lagi getur verið erfitt að finna annað heppilegt húsnæði fyrir þessa starfsemi því þarna eru mjög margir fundir haldnir í hverri viku, og aðrar ástæður eru líka fyrir því að það er erfitt fyrir þessa starfsemi að deila húsnæði,“ segir Baldur.
Hver AA-deild er sjálfstæð eining og ekki er til neinn formlegur félagsskapur um starfsemina á Selfossi, og ekki sjálfstæður sjóður. Þeir sem koma á fundi skjóta saman í kaffisjóð, en lítil sem engin önnur útgjöld eru til staðar, hvað þá tekjur. Verði þær sérstaklega til, eru þeir fjármunir sendir til AA á Íslandi.
„Þetta er mjög aktív deild, staðsetningin er góð og ekki sjálfsagt að hægt sé að finna jafngott hús,“ segir Baldur. Hann bendir á að það sé ekki einungis fólk frá Selfossi sem sæki þangað fundi, heldur úr öllu héraðinu. Svo séu ýmsir sem þurfa að sækja fleiri en einn fund í viku og þeir séu ekki haldnir nema einu sinni í viku í sveitarfélögum utan Selfoss, og því sæki menn fundi í umrætt húsnæði á Selfossi.
Dýrt að eiga
Líkt og áður segir, er það Héraðsnefnd Árnesinga sem fer með eignarhaldið í húsinu og að sögn Ara Björns Thorarensen, formanns nefndarinnar, hefur það staðið til nokkuð lengi að reyna að selja húsið.
„Ætli þetta hafi svo ekki farið að stað að einhverju marki í fyrra haust, svo þetta hefur verið í deiglunni,“ segir Ari. Hann segir það kosta héraðsnefndina talsverða fjármuni að eiga húsið.
„Það þarf einnig að ráðast í verulegar lagfæringar á því og þær geta orðið kostnaðarsamar,“ segir hann. Hann segir að klárlega verði reynt að koma á móts við AA-samtökin. „Við viljum finna þeim annað húsnæði í staðinn, og þeir verði ekki á götunni,“ segir Ari.