Nýverið kom út fyrsta fatalína barnafatamerkins Emil&Lína. Þar með var endurvakið nafnið á barnafataversluninni sem var upphafið að Lindex ævintýrinu á Íslandi.
Að Emil&Línu standa hjónin Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon sem einnig eru eigendur Lindex á Íslandi og umboðsaðilar Gina Tricot á Íslandi. Bæði þessi vöruverki eru gríðarlega vinsæl á Íslandi og má ætla að Emil&Lína slái einnig í gegn hjá landanum.
Fatalínan sækir innblástur úr sagnahefð Íslendinga um víkinga sem lögðu út á heimsins höf, hrafna sem tóku sér fótfestu hér á landi þrátt fyrir áskoranir íslensks veðurfars og tröll sem búa í steinamyndum allt í kringum landið. Flíkurnar sem eru innblásnar af íslensku lopapeysumynstri og kallast á við sögur og ævintýri sem endurspeglast í skemmtilegu prenti.

Heimaæfingar sem vöktu frumkvöðulinn
„Emil og Lína var upphaflega opnað árið 2010. Þá langaði okkur í smá ævintýri og ákváðum við að flytja til Svíþjóðar þar sem ég var í fæðingarorlofi með son okkar Magnús Val og Albert ætlaði í mastersnám,“ segir Lóa í samtali við sunnlenska.is.

„Ekki leið á löngu þangað til Albert var farin að kenna við háskólann og öll kvöld fóru í að búa til fyrirlestra í markaðsfræðum og stjórnun. Hann æfði sig svo í að kynna fyrirlesturinn heima fyrir mig sem sat og hlustaði með miklum áhuga. Fyrirlestrarnir voru svo skemmtilegir og hvetjandi að frumkvöðullinn í mér var fljótt farin að iða í skinninu að búa til eitthvað sniðugt fyrirtæki.“
Frá eldhúsborðinu í Smáralind
„Einn sunnudagsmorgun þá ræddi ég það við Albert að mig langaði að stofna verslun á Facebook og selja sænsk barnaföt til Íslands. Honum leist strax vel á hugmyndina og fljótt var allt komið á fullt.“
Lóa segir að eldhúsborðið heima hjá þeim hafi dag eftir dag verið þakið innkaupapokum, fötum og pöntunum sem voru á leið til Íslands. „Við komum svo heim til Íslands, opnuðum Emil&Línu verslun við Eyraveg á Selfossi og héldum áfram að selja vörurnar með því að halda heimakynningar. Við lokuðum svo Emil&Línu þegar við opnuðum Lindex í Smáralind. Núna 15 árum seinna ákváðum við svo að endurvekja Emil&Línu með eigin vörulínu.“

Vefverslun í bígerð
Sem stendur er einungis hægt að nálgast vörur Emil&Línu í verslun Emil&Línu – Born in Iceland á Laugavegi 53b í Reykjavík en með tíð og tíma verður hægt að nálgast vörkumerkið víðsvegar um land, þar á meðal á Selfossi.

„Eins og er, erum við með Emil og Línu í verslun okkar á Laugavegi 53b þar sem við seljum líka fleiri vörumerki. Við stefnum svo á að opna vefverslun á næstu dögum og svo á fleiri stöðum um landið.“
„Stærðirnar eru frá 68-122 sem er sirka sex mánaða til sex ára. Allir sem hafa áhuga á fallegum barnafötum úr góðu efni ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og auðvitað skemmtilegt hvernig sagnahefðin tvinnast inn í mynstrin. Ég myndi segja að þetta séu ekki bara falleg og mjúk föt heldur líka skemmtileg.“

Frábærar viðtökur
Það er augljóst að fólk kanna að meta flíkurnar frá Emil&Línu en flest prentin eru nú þegar uppseld. Lóa er að vonum ánægð með viðtökurnar og segir að Emil&Lína séu bara rétt að byrja.
„Viðtökurnar hafa verið algjörlega frábærar. Við höfum fengið mikið af ferðamönnum til okkar sem gjörsamlega falla fyrir fallegu handprjónuðu ullapeysunum og mynstrunum. Eins og er, eru flest prentin uppseld svo við erum í óða önn að láta framleiða meira fyrir okkur fyrir sumarið.“

Lærdómsríkt og skemmtilegt ferli
Að sögn Lóu tók ferlið frá því hugmyndin kviknaði og þar til hún varð að veruleika um tvö ár.
„Við vorum með mjög mótaðar hugmyndir um hvernig við vildum hafa vörumerkið en gerðum okkur kannski ekki alveg grein fyrir hversu mikil áskorun það yrði að finna réttan framleiðanda og hversu margar ákvarðanir þarf að taka um öll möguleg atriði stór sem smá.“
„Svona krefst mikillar þolinmæði, tíma og auðvitað fjárfestingar. En ferlið hefur verið gríðarlega lærdómsríkt en mjög skemmtilegt. Allt öðruvísi en það sem við höfum tekist á við hingað til, með rekstur til dæmis Lindex.“

Ullarpeysur sem stinga ekki
Ullarpeysurnar frá Emil & Línu eru úr Merino ull og henta vel fyrir unga og viðkvæma húð. Ullin er fengin úr framleiðsluferli Álafoss/Ístex og er handunnin af íslenskum konum sem merktar eru fyrir hverri flík. Handverkið er því íslenskt, unnið af fimmtán einstökum konum sem flytja áfram prjónahefð sem gengið hefur í erfðir í aldanna rás.

„Það hefur gengið vel að velja handverkið. Við byggjum upp línurnar í ákveðnu þema og handverkið er hannað í takt við það. Við höfum verið heppin með að hafa góða prjónkonur í kringum okkur sem vildu koma í þetta með okkur og svo smitar það út frá sér hvað þetta er skemmtilegt verkefni og alltaf bætist í þann góða hóp.“
„Ég hlakka mjög mikið til að endurvekja Emil&Línu í heimabænum þegar að því kemur. Ég hvet alla til að fylgja okkur á Instagram og Facebook til að fá nýjustu fréttirnar og kíkja á hvað við erum að gera,“ segir Lóa að lokum.
