Hinn 1. júní síðastliðinn kom út ljóðabókin „Ekki er sú rósin best – Heimsósómar og ádeiluljóð“ eftir Guðmund Sæmundsson doktor og fv. aðjunkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Þetta er önnur ljóðabók höfundar. Í fyrra gaf hann út bókina Í sjöunda himni býr sólin en hann hefur áður gefið út þýðingar sínar á ljóðum Hó Chí-Mínhs, Maós Tse-túngs og Leonard Cohens, auk ýmissa bóka um aðskiljanlegustu efni. Bókin hefur að geyma 36 ljóð. Þau eiga það öll sammerkt að fjalla á einhvern hátt um stjórnmál og baráttu fyrir réttlátara samfélagi.
Þetta er önnur bókin í flokki ljóðabóka sem hver fyrir sig fjallar um eitt efni. Bókinni fylgir hljómdiskur með upplestri höfundar á öllum ljóðunum. Frumsömdu ljóðin eru 15, ort á ýmsum tímum. Þýddu ljóðin eru 21 og eftir ýmsa höfunda, m.a. Maó Tse-túng, Bob Dylan, Leonard Cohen, Inúítann Aqqaluk Lynge og norsku skáldin Frederik Fasting Torgersen, Sigbjörn Obstfelder, Rolf Jacobsen, Gunnar Lunde, Ingebjörg Kasin Sandsdalen, Tarjei Vesaas, Jens Björneboe og Kjersti Ericson.
Bókin er 64 blaðsíður auk kápu. Útgefandi er Bláskógar. Hljómdiskur fylgir bókinni með upplestri höfundar á öllum ljóðunum.
Guðmundur hefur stundað ýmis önnur störf en kennslu við Háskóla Íslands, meðal annars verið grunnskóla- og framhaldsskólakennari, bóka- og blaðaútgefandi, ritstjóri, blaðamaður, starfsmaður á Kleppi og Sólborg, sjóari, byggingaverkamaður og öskukarl. Fyrr á árum var hann áberandi fyrir gagnrýni sína á forystu verkalýðshreyfingarinnar.