Grímsnes- og Grafningshreppur telur sig ekki þurfa að grípa til frekari aðgerða eftir að í ljós komu óvönduð vinnubrögð við dælingu seyruvökva milli bíla í sumarhúsahverfum í hreppnum.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rannsakaði þrjá staði að beiðni Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem kvartanir höfðu borist sveitarfélaginu vegna hreinsibíla, sem höfðu staðið á viðkomandi stöðum yfir nótt eða í nokkra daga meðan á vinnu Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands stóð á svæðinu. Óþarfi reyndist að taka sýni til rannsókna þar sem gróður var svo gróskumikill að allt benti til losunar á áburðarmiklum efnum eins og grá- eða siturvatni.
Líkt og kunnugt er þá veitti Heilbrigðiseftirlitið fyrirtækinu formlega áminningu í ágúst sl. vegna losunar seyruvökva á vatnsverndarsvæði Þingvalla auk þess sem fyrirtækinu var gert að skila inn mánaðarlegum upplýsingum um starfsemi sína og það sett undir sérstakt eftirlit.
Birgir Þórðarson hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sagði í samtali við Sunnlenska að fyrirtækið hefði þurft að nota litla dælubíla til að komast um þröngar götur að sumarbústöðunum. Því var dælt yfir á tankbíla af minni hreinsibílum á viðkomandi stöðum. Ummerkin í gróðrinum stöfuðu af óvönduðum vinnubrögðum við dælingu seyruvökva á milli bílanna. Heilbrigðiseftirlitið hefur gert kröfu um bætt verklag og meiri nákvæmni í vinnubrögðum. Tók Birgir fram að fyrirtækið hafi tekið ábendingarnar alvarlega og að allt eftirlit hafi verið unnið í góðu og fullu samstarfi.
Grímsnes- og Grafningshreppur telur sig ekki þurfa að grípa til frekari aðgerða. Að sögn Gunnars Þorgeirssonar oddvita rennur samningur við Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands út um næstu áramót. Verður þá farið í nýtt útboð og átti Gunnar von á að kröfur yrðu talsvert stífari í ljósi undangenginna atburða. Einnig væri ætlunin að semja við heilbrigðiseftirlitið um vöktun á nýjum þjónustuaðila.
Talsmaður Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands neitaði að tjá sig um málið þegar Sunnlenska hafði samband við hann.