Ekki verður áfram heimavist í Fosstúni á Selfossi, fyrir nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands, eftir að samningur á milli eigenda og skólans rann út og fékkst ekki framlengdur.
Skólayfirvöld höfðu sett sér þá stefnu að reyna að fá fyrirkomulagi um rekstur húsnæðisins breytt, enda var það orðið skólanum kostnaðarsamt að leigja húsnæðið fyrir nemendur skólans, og leigutekju stóðu hvergi nærri undir þeim kostnaði. Nýr eigandi húsnæðisins setti jafnframt upp kröfur um talsvert mikið hærra leiguverð sem ekki var hægt að mæta af hálfu skólans.
Tíu ára samningur með eins árs framlengingu rann út í vor, en skólinn var skuldbundinn til þess að leigja öll 32 herbergin í Fosstúni, óháð því hvort nægilega margir nemendur vildu leigja þar húsnæði.
Skólinn er ekki skilgreindur sem heimavistarskóli og því er ekki gert ráð fyrir fjármunum fyrir heimavist í fjárlögum. Skólayfirvöld hafa sett sig í samband við sveitarstjórnir í þeim hreppum í héraðinu sem eru hvað lengst frá Selfossi til að skoða hvað gera megi fyrir unga nemendur sem vilja sækja nám við FSu.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, segir að fundað verði í menntamálaráðuneytinu vegna málsins, þar sem verða einnig fulltrúar sveitarstjórna. Meðal þess sem rætt hefur verið til úrlausnar er að koma upp nokkurs konar námsverum í þéttbýliskjörnum fjarri skólanum, líkt og dæmi eru um á Þórshöfn, Patreksfirði og víðar.
„Það eru aðeins hugmyndir, það er ekkert fast í hendi,“ sagði Olga Lísa í samtali við Sunnlenska.