Aukin skjálftavirkni hefur verið í Kötlu síðustu daga. Skömmu eftir miðnætti í nótt hófst hrina og klukkan 6:30 höfðu rúmlega 95 skjálftar mælst, átta yfir 3 stig og sá stærsti 4,4.
Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli síðustu vikur er sú mesta síðan haustið 2016. Mælingar sýna aukningu í rafleiðni í Múlakvísl sem er nú óvenjuhá miðað við árstíma. Gasmælir á Láguhvolum sýnir aukningu í jarðhitagasi. Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að túlkun mælinga bendi frekar til jarðhitavirkni en ekki er hægt að útiloka kvikuhreyfingar.
Líkur eru á vatnavöxtum í Múlakvísl vegna aukins hlutfalls jarðhitavatns í ánni. Gasmengun við ána getur fylgt jarðhitavatni. Um helgina má búast við hægri breytilegri átt á svæðinu og því getur gas safnast fyrir. Næstu daga má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli em auka líkur á berg- og íshruni.
Fólki er ráðlagt frá að vera á ferli nærri upptökum Múlakvíslar og við Kötlujökul.