Ekki nóg að vera með ljósin á „auto“

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frá því á mánudag hefur vel á þriðja tug umferðarlagabrota verið skráður í dagbókina hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þar af voru fimm ökumenn stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fjórtán ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók var á 144 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Eldhrauni í Skaftárhreppi. Þrír ökumenn atvinnutækja voru stöðvaðir fyrir brot á reglugerð um stærð og þyngd ökutækja og sex ökumenn voru stöðvaðir fyrir að vera ekki með tilskilin réttindi til aksturs.

Fimm umferðaróhöpp eru skráð í dagbókina, en öll án meiðsla.

„Með lækkandi sól breytast akstursaðstæður og skyggni til hins verra. Ökumenn þurfa að huga að ljóskerjum ökutækja og tryggja að þau séu í lagi. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að hafa ljósabúnað ekki í lögmætu ástandi. Auk þessa er rétt að minna ökumenn á að hafa aðalljós fulltendruð og ekki er nóg að aka með ljós sem stillt eru á „auto“ stillingu,“ segir í dagbókarfærslu lögreglunnar.

Fyrri greinHraustir menn og Elvis í Hvolnum