Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands tapaði 23-29 gegn sterku liði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi þegar keppni hófst í Gettu betur í Ríkisútvarpinu í kvöld.
Viðureignin var æsispennandi og lið FSu stóð sig vel í baráttunni við FVA. Eftir 100 sekúndna hraðaspurningar var staðan 15-21, FVA í vil, en FSu náði að jafna metin, 21-21 eftir fjórðu bjölluspurningu. Skagamenn reyndust þó sterkari á lokasprettinum og sigruðu 23-29.
Það er þó ekki öll nótt úti hjá liði FSu því stigahæsta tapliðið í 1. umferð kemst áfram í 2. umferð og deilir FSu þeim titli nú með liði Menntaskólans á Egilsstöðum.
Lið FSu skipa þau Elsa Margrét Jónasdóttir, Jakob H P Burgel Ingvarsson og Sigurður Andri Jóhannesson.
Lið Menntaskólans að Laugarvatni mætir Menntaskóla Borgarfjarðar í 1. umferð, þann 14. janúar á Rás 2.