Bæjarráð Árborgar skorar á ríkisstjórn Íslands að bregðast við þeim tekju- og útgjaldavanda sem sveitarfélög í landinu glíma við vegna Covid-19 og mun reyna mjög á fjárhag íslenskra sveitarfélaga árin 2020 og 2021.
„Allt önnur lögmál gilda um skuldasöfnun ríkissjóðs en sveitarfélaganna. Mikil skuldasöfnun sveitarfélaga mun skerða getu þeirra til viðspyrnu og þjónustu á næstu árum og því mikilvægt að leitað verði annarra leiða,“ segir í ályktun sem samþykkt var á bæjarráðsfundi í gær.
Bæjarráð bendir á að útsvarstekjur skerðist verulega vegna COVID-19 en ofan á það bætist tekjuskerðing vegna lækkaðra framlaga úr Jöfnunarsjóði. Á sama tíma kalli ríkisstjórn Íslands eftir auknum fjárfestingum til örvunar atvinnulífs og uppbyggingar innviða.
„Það er ekki nóg með að tekjur sveitarfélaga lækki, heldur hafa útgjöld aukist og mikil þörf er fyrir aukna samfélagslega þjónustu. Það er mikilvægt að ríkissjóður styðji sveitarfélögin til þess að standa í framlínu, verja íbúa gegn áföllum og blása samfélögunum í brjóst afli til þess að vinna gegn kreppu og samdrætti. Nú er því ekki rétti tíminn til að draga saman seglin, heldur þarf að bæta í þjónustu og koma í veg fyrir að samfélagslegt tjón hljótist af til lengri tíma,“ segir ennfremur í bókun bæjarráðs Árborgar.