Íþrótta- og tómstundanefnd Mýrdalshrepps hefur fundað fjórum sinnum á þessu kjörtímabili, þar af síðast fyrir tæpum átta mánuðum síðan.
Þetta kemur fram í opnu bréfi sem Ástþór Jón Tryggvason, frjálsíþróttaþjálfari hjá Umf. Kötlu, ritaði til sveitarstjórnar og íþrótta- og tómstundanefndar á Facebook.
Ástþór segir stöðuna í þessum málaflokki ekki eins og best verður á kosið í hreppnum og í bréfi sínu spyr hann hvort ráðamönnum í sveitarfélaginu finnist það boðlegt.
„Nefndin hefur ekki fundað síðan 6. október, þó svo að tekið hafi verið fram í þeirri fundargerð að boða ætti til fundar í nóvember. Á þessum fundi var bókað að nefndarmenn væru sammála um að vinna hratt og vel að því að koma ungmennaráði sveitarfélagsins á fót. Hvar er fundurinn? Hvar er ungmennaráðið? Hvenær á að kynna okkur ungmennunum þetta? Það er komið á áttunda mánuð án fundar gott fólk,“ segir Ástþór Jón í bréfi sínu.
Sveitarstjórn hefur vísað þremur erindum til afgreiðslu nefndarinnar, í desember í fyrra, og í febrúar og apríl á þessu ári. Þrátt fyrir þetta hefur nefndin ekki verið kölluð saman.
„Þegar erindi manns fá ekki eðlilega umfjöllun, er fátt eftir annað en að koma þessu frá sér á opnum vettvangi. Hvað er að frétta í þessum málum? Mér þykir þetta ekki vera sæmandi, fyrir fólk sem bíður sig fram til þjónustu fyrir sveitarfélagið sitt, að sinna ekki málaflokki eins mikilvægum og þessum,“ segir Ástþór Jón ennfremur.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Ástþór að hann hafi ekki fengið nein viðbrögð frá ráðamönnum við opna bréfinu, en það eru þrír dagar síðan hann birti það. „Þessi mál hafa alltaf verið látin sitja eftir þannig að þetta kemur mér svo sem ekki á óvart. Það eru rngin viðbrögð ennþá, en ég held í vonina.“