Lögreglan á Suðurlandi mun ekki sekta ökumenn fyrir að aka á negldum dekkjum það sem eftir lifir októbermánaðar. Almenna reglan er að tími nagladekkjanna sé frá 1. nóvember til 15. apríl.
Nú er kominn sá árstími að hætta er á ísingu víða um Suðurland og í tilkynningu frá lögreglunni segir að sú skylda hvíli á ökumanni að sjá til þess að bifreið sem hann ekur sé þannig búin að hún sé örugg í umferðinni hverju sinni. Því muni lögreglan ekki sekta ökumenn fyrir nagladekk nú í október.
Lögreglan biður fólk um að fara varlega í umferðinni og aka í samræmi við aðstæður hverju sinni og ekki gleyma að skafa af rúðum ökutækja, þannig að útsýn sé ekki skert.