„Það undrast kannski einhverjir ákvörðun mína að óska eftir að taka 5. sætið á listanum eftir að hafa fengið góða kosningu í 1. sætið,“ sagði Ásta Stefánsdóttir í ávarpi á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Árborg á Hótel Selfossi í kvöld.
„Staðan sem kom upp eftir prófkjörið var frekar óvenjuleg, það er að segja sú staða að núverandi bæjarfulltrúar, sem sóttust eftir sæti ofarlega á listanum fengu mjög jafnt atkvæðamagn, og það má segja að það hafi verið tilviljun ein sem réði uppröðun í sætin þar sem það munaði svo fáum atkvæðum á milli manna. Þau hlutu öll mjög góða kosningu. Staðan var ennþá sérstakari í því ljósi að það var hnífjafnt í 3. sætið og ekki eitt einasta atkvæði sem skildi frambjóðendurna að. Prófkjörið skar þannig ekki fyllilega úr um það hver röð efstu manna skyldi vera og kjörnefndinni var ákveðinn vandi á höndum. Ég ákvað að bjóða upp á þann möguleika að ég yrði í 5. sæti og var þeirri hugmynd vel tekið,“ sagði Ásta.
Hún bætti við að niðurstaðan úr prófkjörinu væri ákveðin áskorun fyrir sig sem pólitískan bæjarstjóra og alla bæjarfulltrúana sem tóku þátt og gáfu kost á sér til setu á listanum fyrir næstu kosningar.
„Það var ljóst að vilji þeirra sem kusu í prófkjörinu var að hafa núverandi bæjarfulltrúa áfram í bæjarstjórn. Sá vilji endurspeglast í þeim lista sem hér hefur verið kynntur. Það er því ekki verið að hundsa prófkjörið með neinum hætti en niðurstaðan úr því var ekki meira afgerandi en raun var,“ segir Ásta en að hennar sögn náðist full sátt um röðun í efstu sætin með því að hún tæki 5. sætið.
„Ég tel afar mikilvægt að það hafi náðst sátt um þetta. Ég tel listann vera sterkari fyrir vikið og það er það sem máli skiptir í þessu öllu saman, að listinn sé sterkur. Ég mun leiða listann og vera talsmaður hans óháð því hvaða númer er á sætinu sem ég skipa,“ sagði Ásta ennfremur.