Matvælastofnun hefur kallað eftir sýnum úr lungum sauðfjár sem hefur drepist í Mýrdal og talið er að hafi sýkst af lungnapest.
Að sögn Þorsteins Ólafssonar, dýralæknis hjá Matvælastofnun, þarf að rannsaka hverskonar bakteríu sé á bakvið lungnapestina í Mýrdalnum. Óvíst er hvort bóluefni sé til sem henti pestinni.
Þorsteinn segir að nokkrar tegundir bakteríu geti orsakað pestina. Ekki sé víst að það bóluefni sem til er henti gegn veikinni. Sex kindur hafa drepist á Sólheimahjáleigu og var ein þeirra krufin. Staðfest er að um lungnapest sé að ræða.
Þorsteinn segir að ekki sé vitað hvort lungnapestina megi rekja til þess að sauðfjárveikihólf hafi nýlega verið opnuð. Mögulegt sé að rekja megi pestina til rykáreitis vegna öskufalls í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.
Þessu er Einar Þorsteinsson á Sólheimahjáleigu ósammála eins og fram hefur komið á sunnlenska.is.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu PANTA ÁSKRIFT