Láréttar GPS færslur inn að miðju Eyjafjallajökuls, ásamt hægu sigi mælipunkta, sýna að eldfjallið dregst hægt saman eftir útþenslu.
Gosmökkurinn er ljósgrár og er að jafnaði í 4-5 km hæð samkvæmt veðurratsjá en rís stundum ofar. Hann stefnir í suðaustur en vindáttir eru þó breytilegri við yfirborð og austlægar.
Gjóskufall er vestar en áður, var á Skógum í morgun og hófst á Þorvaldseyri um klukkan átta. Er að sögn ábúenda þar að færast vestar. Askan er svört.
Drunur hafa heyrst í Vestmannaeyjum, í Borgarfirði og alla leið norður í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu í tæplega 200 km fjarlægð.
Ef tekið er mið af síðustu sjö dögum virðist framleiðsla gosefna hafa farið hægt dvínandi. Gosvirknin hefur þó gengið í bylgjum og má búast við áframhaldandi sveiflum í virkni. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka.