Eldur kom upp í bíl á Eyrarbakkavegi um klukkan hálf ellefu í kvöld.
Ökumaður bílsins hafði verið að skipta um olíu og eitthvað af henni hafði lekið niður með vélinni svo að kviknaði í þegar vélin og pústkerfi hitnaði.
Ökumaðurinn varð eldsins ekki var heldur kona sem ók næsta bíl fyrir aftan. Hún sá hvar eldurinn stóð undan bifreiðinni og hringdi í Neyðarlínuna. Hún blikkaði svo háu ljósunum á bílinn fyrir framan sig í dágóða stund þangað til ökumaðurinn stöðvaði til móts við Geirakot. Í sömu mund kom lögregla á vettvang og slökkti hún eldinn með handslökkvitæki.
Ekki var um mikinn eld að ræða og ökumaðurinn gat haldið ferð sinni áfram eftir að slökkvistarfi lögreglunnar lauk.