Nokkur kraftur færðist í eldgosið á Fimmvörðuhálsi eftir miðnætti í nótt en nú í morgun er svipaður kraftur í gosinu og í gær. Sú breyting hefur orðið að verulega hefur dregið úr gufumyndun og gufusprengingum í Hrunagili, þar sem hraunið steypist niður í fossi.
Vísindamenn telja líklegt að snjórinn sé að verða búinn í gilinu og því sé gufumyndun að hverfa. Á visir.is kemur fram að fjölmargir ferðamenn lögðu leið sína að gosstöðvunum langt fram á nótt og nokkrir tjölduðu í Emstrum.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur umferð verið mikil um svæðið í morgun en verið er að lagfæra veginn um Fljótshlíð að bænum Fljótsdal til að auðvelda ferðafólki að komast á staðinn.