Eldhúsið opnar í dag

Í dag, fimmtudag, opnar nýr veitingastaður á Selfossi sem kallast Eldhúsið. Staðurinn er að Tryggvagötu 40 í húsi sem flestir Selfyssingar og nærsveitungar þekkja sem Hornið.

Eldhúsið er morgunverðar- og hádegisstaður sem rekinn er af þeim Katharínu og Smára, eigendum veisluþjónustunnar Matur og músík. Staðurinn verður opinn alla virka daga frá kl. 8 til 14 en lokað verður um helgar.

Fyrst á morgnanna verður boðið upp á hollan morgunmat og í hádeginu verður boðið upp á fjölbreytta rétti. Réttirnir verða tilbúnir þannig að lítið mál verður fyrir fólk að koma við og grípa með sér mat.

Þá verður mögulegt fyrir hópa að leigja salinn fyrir veislur, fundi og annars konar mannfagnaði en salurinn er rúmgóður og tekur 60-70 manns í sæti.

Listaverk munu prýða veggi staðarins og verða sýningar á verkum uppi í mánuð í senn. Opnunarsýningin er málverkasýning listakonunnnar Ingunnar Jensdóttir.

Matur og músík rak samskonar stað í golfskálanum á Svarfhóli síðustu sumur og auk þess var veisluþjónusta fyrirtækisins gerð út frá Gagnheiðinni á Selfossi. Nú hafa þessi tveir þættir rekstursins verið sameinaðir á einn stað í nýja húsnæðinu.

Á laugardaginn verður opið hús frá kl. 13 til 15 þar sem fólki er boðið að koma og sjá staðinn. Í boði verður kaffi, gos, kleinur og fleira.

Fyrri grein„Árbær er frábær“
Næsta greinÞrír teknir með fíkniefni