Eldstöðvarnar kortlagðar síðar í dag

Gosið í Grímsvötnum virðist í rénun en samkvæmt upplýsingum frá vísindamönnum hefur gosmökkurinn verið mun lægri í nótt en hann var í gær og nær nú 3-5 km hæð.

Áætlað er með að TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar fari í flug síðar í dag en nú er unnið að því að gera hana klára en varahlutur sem beðið var eftir kom til landsins í gærkvöldi. Verða vísindamenn með í fluginu og munu eldstöðvarnar verða kortlagðar með radar- og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar. Frá því að gosið hófst hefur Landhelgisgæslan útvegað radargögn frá ratsjárstöðinni Stokksnesi sem nýst hafa vel við útreikninga á hæð gosstróksins og önnur umbrot sem eiga sér stað á svæðinu.

Áfram er búist við öskufalli víða SA-lands í dag. Segir Halldór Björnsson veðurfræðingur að gosmökkurinn sé nú vart sjáanlegur á gervitunglamyndum vegna veðuraðstæðna, en sjá má lágskýja öskuský sunnan af landinu. Útlit er fyrir að askan muni nú berast suður af landinu og verða í lægri hæðum. Útlit er fyrir að gjóskuframleiðslan sé nú mun minni úr gígnum en undanfarna daga. Hins vegar hafi gríðarlegt magn af ösku fallið á landið og sé ennþá í háloftunum. Öskufallsmælingar má sjá á síðunni http://kort.vista.is/ Sjá nánar á vef Veðurstofu Íslands og www.vedur.is og Umhverfisstofnunar www.ust.is. Íbúum svæðisins er bent á að kynna sér öskufallsbækling, sem hægt er að nálgast á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra www.almannavarnir.is .

Samráðshópur um áfallahjálp hefur verið með hópa í fjöldahjálparstöðvum á Klaustri, í Vík, Höfn og Hvolsvelli. Hefur gengið ágætlega hjá þeim og er ró og yfirvegun í störfum þeirra. Nokkrir íbúar hafa ákveðið að fara tímabundið í burtu. Þrír læknar eru nú staðsettir á Klaustri og er kirkjan er að skipuleggja aðstoð og stuðning við presta á svæðinu. Bent er á hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er upplýsingasími fyrir almenning til að til að nálgast almennar upplýsingar og sækja sér sálrænan stuðning.

Fyrri greinRáðherrar funda með vettvangsstjórn
Næsta greinDregur verulega úr gosinu