Kl 2:00 í nótt barst slökkviliðmönnum hjá Brunavörnum Árnessýslu í Þorlákshöfn boð um að reykur sæist frá bát við Svartaskersbryggju í Þorlákshöfn.
Í fyrstu var ekki vitað hvort einhver væri um borð en fljótlega náði Landhelgisgæslan sambandi við yfirstýrimann sem staðfesti að báturinn væri mannlaus.
Reykkafarar fóru um borð í bátinn og fundu eldinn og hófust handa við að slökkva hann. Mikill hiti var um borð og þurfti töluvert magn af vatni til að slökkva eldinn og kæla rýmið. Þegar eldurinn hafði verið slökktur var vatninu dælt upp úr bátnum aftur til að koma í veg fyrir að hann sykki.
Slökkvistarf gekk vel, en eldsupptök eru óljós. Alls tóku 19 slökkviliðsmenn af þremur stöðvum BÁ þátt í aðgerðinni sem stóð fram á morgun.