Eldur kom upp í jeppabifreið austast á Stokkseyri á níunda tímanum í kvöld. Ökumaður og þrír farþegar sluppu allir ómeiddir.
Ekki var um mikinn eld að ræða en farþegarými bílsins fylltist fljótt af reyk. Ökumaður og farþegar voru fljótir út úr bílnum og náðu að ráða niðurlögum eldsins með handslökkvitæki sem var í bílnum.
Slökkviliðið á Stokkseyri var fyrst á vettvang en þá hafði eldurinn verið slökktur. Einnig voru kallaðir út slökkviliðsmenn frá Selfossi og sjúkrabíll.
Bifreiðin er töluvert skemmd.